Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Kjör lífeyrisþega bætt verulega

 Í gær voru kynntar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í þágu aldraðra og öryrkja sem lögfestar verða eftir áramót. Þetta er annað skrefið sem tekið er í að styrkja velferðarkerfi okkar eins og flokkarnir lofuðu fyrir kosningar.

Formenn stjórnarflokkanna þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde eiga hrós skilið fyrir að hafa gengið svo vasklega fram í þessum málum.

Stjórnarflokkarnir voru mjög samstíga í því að þessi velferðarmál, kjarabætur til lífeyrisþega og málefni barna væru forgangsmál.

Á vorþinginu var samþykkt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna og ungmenna sem þegar er farið að vinna eftir í Félagsmálaráðuneytinu og nú voru kynntar ráðstafanir í þágu aldraðra og öryrkja.

Þær fela m.a. i sér að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin, sem er mikið mannréttindamál og hefur verið báráttumál hagsmunasamtaka bæði aldraðra og öryrkja. Frítekjumark atvinnutekna lífeyrisþega 67 - 70 ára hækkar í 100.000 á mánuði og vasapeningar lífeyrisþega á stofnunum verða hækkaðir.

Gripið verður til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta, nokkuð sem hefur komið illa við marga lífeyrisþega sem hafa fengið kröfur um endurgreiðslu hárra fjárhæða frá Tryggingastofnun aftur í tímann, oft ef tekjur þeirra hafa farið örlítið yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

Ríkissjóður mun einnig tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008 eins og lofað er í stjórnarsáttmálanum.

Öryrkjum verða tryggðar sambærilegar kjarabætur en útfærslur verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu.

Geymið séreignarsparnaðinn í 1 ár!

Þann 1. janúar 2009 verður afnumin skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar. Það hefur verið mikið óréttlæti hvernig séreignarsparnaður hefur að litlu orðið vegna tekjutenginga í almannatryggingunum. Ekki er unnt að breyta þessu fyrr en eftir ár vegna skorts á upplýsingum og af tæknilegum ástæðum. Ég hvet því eigendur slíks sparnaðar að bíða í rúmt ár með að taka hann út, -  eða þar til breytingin verður að lögum um þarnæstu áramót.

Þessi breyting er mikið réttlætismál eins og reyndar allar þær breytingar sem nú eru boðaðar.

Lífeyrisþegar hljóta að fagna þessum tíðindum.

 


Höfundur

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband