20.3.2007 | 15:05
Firrtur fjármálaráðherra og fátækt barna
"Drengir, sjáið þið ekki veisluna?" - voru viðbrögð fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins við þeirri staðreynd að barnabætur hafa lækkað ár frá ári í tíð ríkisstjórnarinnar þar til nú rétt fyrir kosningar, en málið var rætt í þinglok.
Þeim um 5.300 börnum sem eru í fjölskyldum sem hafa tekjur undir fátæktarmörkum á Íslandi hefur ekki verið boðið til veislu ráðherrans. Í þeirri veislu eru aðrir.
Á ráðstefnu Félags félagsfræðinga, sem ég sat í síðustu viku, fóru sérfræðingar yfir afleiðingar fátæktar á íslensk börn. Niðurstöður rannsóknanna sem kynntar voru vöktu sorg og óhug hjá mér.
Ein rannsóknin mældi upplifun unglinga á peningaskorti á heimilinu og tengsl við vanlíðan og vanda þeirra, þátttakendur voru 7.500 grunnskólabörn árið 2006.
Önnur mældi upplifun barna á fjárhagsstöðu foreldranna og tengsl hennar við bágt heilsufar þeirra sjálfra. Þar tóku þátt um 12.000 grunnskólabörn í fyrra.
Niðurstöður beggja rannsóknanna eru marktækar;
Bein tengsl eru milli fjárhagslegrar afkomu foreldra og andlegrar líðanar barna. Fátækustu börnin voru margfalt líklegri til þess að sýna mikil einkenni depurðar, að vera leið og einmana, langa til að gráta og eiga erfitt með að sofna.
Fátæk börn fóta sig verr í skólakerfinu og gengur illa í námi.
Fátæku börnin töldu sig síður bundin af reglum samfélagsins. Þeim fannst heimurinn óréttlátur.
Börnin sem upplifðu fátækt fannst þau heilsulausari, þau hreyfðu sig minna, voru of þung, borðuðu óhollari mat, minna af ávöxtum og fóru mun sjaldnar til tannlæknis en önnur börn.
Árið 2005 var rannsökuð tannheilsa 2.250 grunnskólabarna og niðurstöðurnar, - jú, því lægri sem tekjur foreldranna voru þeim mun meiri voru tannskemmdirnar.
Þarf frekari vitna við að gefa þurfi þessum stjórnarherrum frí í vor?
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2007 | 19:00
Reykvískar konur geta breytt sögunni
Ég hef sjaldan fylgst með eldhúsdagsumræðum af meiri athygli en nú. Ingibjörg Sólrún bar af forystumönnum flokkanna, bæði í framgöngu og málflutningi. Mikið gætum við íslenskar konur verið stoltar af henni sem forsætisráðherra.
Það er í valdi kvenna á höfuðborgarsvæðinu að gera kosningarnar í vor sögulegar og gera konu, - reynda konu, fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík - að fyrsta forsætisráðherra Íslands.
Konu sem hefur látið verkin tala þegar hún var í aðstöðu til að breyta einhverju, - við munum t.d. hvernig ástandið var í dagvistarmálunum áður en Ingibjörg Sólrún kom í ráðhúsið. Það var eins og ástandið er í hjúkrunarmálunum nú. Hún breytti stöðunni gagnvart barnafólkinu og hún mun leysa hjúkrunarvandann komist Samfylkingin til valda. Og ekki má gleyma jafnréttismálunum, sem hún náði miklum árangri í með því að setja þau í forgang í borginni.
Til þess að stuðla að þeim sögulegu tíðindum að kona verði forsætisráðherra verða konurnar sem studdu okkur jafnaðarmenn, - kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum - að styðja okkur áfram.
Hugsið ykkur hversu mikilvægt það er í jafnréttis- og kvennabaráttunni að ungt fólk fái slíka fyrirmynd, konu sem forsætisráðherra frekar en að í forsætisráðuneytið setjist einn karlinn enn að loknum kosningum.
Kona í forsætisráðuneytinu hefði sambærileg áhrif og þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti. Það hafði ótrúlega mikil áhrif á stöðu kvenna og viðhorf landsmanna til þess að konur standi jafnfætis körlum í forystuhlutverkum.
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2007 | 13:24
Hætta steðjar að heimili okkar
Í gær buðum við í Samfylkingarbíó. Fullur salur í Háskólabíói sá mynd Al Gores um loftslagsbreytingarnar. Myndin fékk Óskarinn í síðustu viku, - þetta er mynd sem ætti að vera skyldumæting á, allstaðar - og ekki síst í Bandaríkjunum. Það er ekki laust við að maður verði yfirmáta meðvitaður í orku- og mengunarmálum eftir slíka vakningu.
Gore lýsti allri þeirri vá sem steðjar að vegna mengunar í heiminum og hvernig við verðum að bregðast við. Hætta steðjar að heimili okkar, jörðinni - og það er verkefni okkar að hlúa að þessu heimili, - við eigum ekki í önnur hús að venda.
Hvers vegna eigum við Íslendingar að eyðileggja fagra náttúru, reisa virkjanir, nýta ódýra og hreina orku okkar til mengandi álframleiðslu svo að bandarískir unglingar geti drukkið gosdrykki úr áldósum sem þeir henda síðan frá sér og menga umhverfið (en ekki er skilaskylda á áldósum í Bandaríkjunum)? Er það okkar hlutverk að halda niðri verði á áli með ódýrri orku, svo vopnasalar geti selt ódýr vopn og stríðstól til ófriðarsvæða í þriðja heiminum, - eða til að lágstéttar-Bretar geti flogið ódýrt á fyllerí til Ibiza, vegna þess hve álið í flugvélunum er ódýrt? Hafa menn ekki hugsað út í það að ef Golfstraumurinn fer af leið verða fiskimiðin okkar ekki lengur gjöful, - fyrir utan að það verður illa byggilegt hér?
Þetta eru dæmi um viðhorf sem fram komu í umræðum á glæsilegum fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um helgina.
Þetta var fundur um loftslagsbreytingarnar og hlýnun jarðar. Þar hélt Árni Finnsson mjög áhugavert erindi. Mörður Árnason fór yfir stefnu okkar í Fagra Íslandi, sem snýst um hvernig við viljum bregðast við þessu stærsta verkefni stjórnmálanna. Þróunin verður ekki stöðvuð en við verðum að bregðast við strax.
Ég ræddi um alþjóðlegt samstarf sem Samfylkingarfólk og jafnaðarmenn á Norðurlöndum taka þátt í til að reyna að sporna gegn hlýnuninni og þeim óskaplegu áhrifum sem hún hefur í för með sér. Þetta mál hafur verið eitt helsta viðfangsefni umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, sem ég hef átt sæti í undanfarin fjögur ár. Þetta er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna nú og þar verða allir jarðarbúar að leggja sitt af mörkum.
Á heimasíðu minni eru tvær greinar um málið sem birtust nýverið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2007 | 23:00
Slæm samviska
Nú blossar upp bullandi samviskubit hjá framsóknarmönnum vegna vanrækslu í málefnum eldri borgara.
Það má sjá á heimasíðu Framsóknarflokksins og í skrifum heilbrigðisráðherra undanfarið. Framsókn hefur haft málaflokkinn á sinni hendi í 12 ár og aldraðir finna á eigin skinni hvernig flokknum hefur farist stjórn hans úr hendi. Það er svolítið seint að koma nú með loforð og áætlanir um úrbætur, - á næstu árum og ártugum. Það er ólíklegt að þeir verði í aðstöðu til að uppfylla þau loforð og svo trúir þeim ekki nokkur maður eftir það sem á undan er gengið.
Staðan eftir 12 ára valdatíð yfir málefnum aldraðra
Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa undir lágmarksframfærslu, 400 eru í brýnni þörf í bið eftir hjúkrunarrýmum, 70 eru fastir inni á Landspítala og yfir 900 eru í þvingaðri samvist við aðra í fjölbýli á hjúkrunarheimili.
Ekkert nýtt hjúkrunarrými bættist við á höfuðborgarsvæðinu árið 2006, þar sem hjúkrunarvandinn er mestur, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað, loforð, yfirlýsingar og undirskriftir ráðherra ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum.
Heimahjúkrun er mun lakari hér á landi en á öllum hinum Norðurlöndunum. Starfsfólk hjúkrunarheimila neyðist til að vekja athygli á bágum kjörum sínum með setuverkföllum. Skammtímarýmum fyrir heilabilaða fækkar árlega, - er nú aðeins eitt á Landakoti, en voru tvö í haust. Öldruð hjón og pör eru aðskilin á síðustu æviárunum vegna úrræðaleysis í vistunarmálum.
Skattbyrði eldri borgara hefur aukist á valdatíma ríkisstjórnarinnar og kjör þeirra dregist aftur úr öðrum hópum í samfélaginu.
Framsóknarmenn hafa líka ítrekað greitt atkvæði á Alþingi gegn kjarabótum
fyrir eldri borgara s.s. hækkun á frítekjumarki, hærri bótum, minni tekjutengingum, afnámi tekjutengingar við tekjur maka, og að Framkvæmdasjóður aldraðra fari í uppbyggingu hjúkrunarrýma eins og hann var stofnaður til. Ráðherra Framsóknarflokksins notaði fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra í kynningarbækling fyrir sjálfan sig.
Af þessari upptalningu er augljóst að það er aðkallandi að Framsóknarflokkurinn fái frí frá málefnum eldri borgara. Aldraðir þurfa ekki síður frí frá þeim flokki.
Skýr stefna Samfylkingarinnar
Stefnuáherslur Samfylkingarinnar og 60 + í málefnum eldri borgara í komandi Alþingiskosningum voru kynntar á fjölmennum fundum í um síðustu helgi og eru sem hér segir:
- Lífeyrir mæti framfærslu lífeyrisþega eins og hún mælist í neyslukönnun Hagstofu Íslands hverju sinni. Leiðrétting fari fram í áföngum.
- Frítekjumark vegna tekna aldraðra verði hækkað í 100 þús. kr. og nái jafnt til lífeyristekna og atvinnutekna.
- Tekjur maka skerði ekki tryggingabætur ellilífeyrisþega.
- Skattar á tekjur úr lífeyrissjóðum verði lækkaðir í 10%.
- Skattleysismörk verði hækkuð í áföngum á næsta kjörtímabili í samræmi við breytingar á launavísitölu. Ef þessari reglu hefði verið fylgt væru skattleysismörk 136 þúsund krónur í stað 90 þúsund króna eins og þau eru í dag.
- Ráðist verði í stórátak í uppbyggingu fjölbreytilegra búsetuúrræða fyrir eldri borgara og heimahjúkrun aukin til muna. Lögð verði áhersla á að útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum. Á hjúkrunar- og dvalarheimilum verði nægt framboð sérbýla.
- Málefni eldri borgara verði flutt til sveitarfélaga þar sem því verður við komið.
- Stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra.
Samfylkingin mun setja þennan málaflokk í forgang komist hún í ríkisstjórn að loknum kosningum í vor.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 22:19
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Myndaalbúm
Af mbl.is
Íþróttir
- Frá út tímabilið en framlengdi
- Veit ekki einu sinni hvað gerðist
- Magnað afrek Ítalíu á HM
- Towns atkvæðamestur í borgarslagnum
- Eitt besta lið mótsins
- Hélt að ég myndi aldrei gefa þessa einkunn
- Landsliðstreyjurnar til sölu í Zagreb
- Nenntu ekki að spila á móti okkur
- Verður dýrasta knattspyrnukona heims
- Amorim braut sjónvarpsskjá