Leita í fréttum mbl.is

Eiturlyfjabölið á dagskrá

Í vikunni komst eiturlyfjabölið rækilega til umræðu eftir lát ungrar stúlku sem eiturlyfjasalar rændu lífinu, eins og faðir hennar orðaði það í áhrifamikilli og sorglegri minningargrein um hana. Þar segir hann að eiturlyfjafaraldurinn hafi ekki komist á blað í síðustu kosningum. Það er rétt að það mál hefði mátt bera hærra í kosningabaráttunni.

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur mótað heildstæða stefnu í vímuefnamálum. Hópur fólks með reynslu af málaflokknum vann stefnuna í vetur undir minni verkstjórn. Í framhaldinu var ályktun samþykkt á landsfundi og er hún birt í heild hér að neðan.

Unga Ísland

Í aðgerðaáætluninni um málefni barna og unglinga, "Unga Ísland", sem var eitt helsta stefnuplagg okkar í kosningunum, var einnig tekið á þessum málaflokki.  Fyrsta verkefnið í þeirri aðgerðaáætlun er nú að hefjast, - sem er að vinna á allt of löngum biðlistum barna eftir greiningu á Greiningarstöð ríkisins.

Nokkrir þeirra sem unnu hvað ötulast í stefnuhópnum létu í sér heyra í aðdraganda kosninga um málið og vil ég í sambandi nefna þau Njörð P. Njarðvík og Kristínu Blöndal, sem bæði skrifuðu greinar um málið. Hér að neðan eru stefna og hugmyndir Samfylkingarinnar í málaflokknum, sem ég tel mikilvægt að sem flestir kynni sér. Hún byggist á því að komið verði á laggirnar vímuvarnaráði, sem taki á málaflokknum heildstætt og hafi yfirsýn yfir alla þætti hans:

Vímuvarnaráð


Samfylkingin ætlar að setja á laggirnar sérstakt ráð sem fer með yfirumsjón og samræmingu á öllu sem lýtur að vímuefnum. Ráðið skal heyra undir Forsætisráðuneytið og vinna í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti. Þar fer fram samþætting á öllum þáttum sem lúta að málaflokknum. Þar mun starfa sérhæft starfsfólk með víðtæka menntun og reynslu á sviði forvarnar- og meðferðarmála. Leitað verði til þeirra sem hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði og einnig séð til þess að mennta fleira fólk til starfa við meðferðarstofnanir og annast forvarnir. Áfengis og vímuefnavandinn er heilbrigðismál. Greina þarf þörf fyrir úrræði, gera áætlun til langs tíma jafnframt því að  bregðast strax við með raunhæfum hætti fyrir þá sem nú eru í vanda. Stofna þarf sérstakt fagráð sem leitar eftir hugmyndum um allan heim og kannar hvað hefur reynst vel. Ráðið hefur yfirumsjón og eftirlit með öllum sem fá opinbera styrki til reksturs heimila og stofnana. Ráðið sér um fjárhagslegt og faglegt eftirlit, veitir ráðgjöf og stuðlar að samvinnu. Sér um að farið sé að lögum, t.d að aðeins sjúkrastofnanir sjái um afeitrun. Það þarf að samræma og stuðla að samvinnu allra þeirra sem vinna að forvörnum og/eða meðferðaúrræðum. Það þarf fjölbreytni í meðferðarúræðum, meðal annars þarf að vera til staðar langtímameðferð sem spannar eitt til þrjú ár fyrr þá sem þurfa á því að halda. Halda ber í þær góðu stofnanir sem hafa sýnt að þær standast kröfur um fagmennsku og veita áfram fé til þeirra. En ríkið þarf líka að axla ábyrgð og koma á stofn meðferðarheimilum/stofnunum.

VERKSVIÐ:


1.    FORVARNIR: Setja í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla skyldunám í skaðsemi áfengis og fíkniefna. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar verði ráðnir að hverjum skóla til forvarna. Skýr og einföld fræðsla um staðreyndir án prédikunar. Einungis þannig næst til allra barna og unglinga. Samstarf við hin ýmsu félagasamtök og stofnanir svo sem barnaverndarstofu, foreldrafélög, leik-grunn- og framhaldsskóla, lögreglu, fangelsismálastofnun, félagsþjónustu, félagsmiðstöðvar, svæðisskrifstofu fatlaðra, heimahjúkrun svo að einhver dæmi séu nefnd.


2.    RÁÐGJÖF, fræðslu um einkenni og neyðarhjálp verði komið á fyrir aðstandendur þegar grunsemdir vakna um neyslu. Áhersla á að vara við þögn. Upplýsa alla, skólayfirvöld, vini og vandamenn. Hugsanlegt samstarf við heilsugæslu og eða þjónustumiðstöðvar á hverjum stað.


3.    FYLGJA EFTIR LÖGUM sem banna börnum og unglingum að neyta áfengis og fíkiefna. Hafa samband við foreldra þegar slík tilvik koma upp. Taka einnig á sífelldum brotum á banni við áfengisauglýsingum - skýrari löggjöf sem síður er hægt að brjóta. Óviðunandi að hafa löggjöf sem ekki er virt.


4.    INNGRIP strax og vitað er um ólöglega fíkniefnaneyslu. Skoða hvernig aðrar þjóðir hafa nýtt sér heimildir um þvingaða meðferð og hver árangur af slíkum aðgerðum hefur verið. Inngrip er nauðsynlegt og ítrekuð neysla unglinga kallar á ábyrgar aðgerðir.


5.    AÐSTOÐ EFTIR MEÐFERÐ til að komast aftur til eðlilegs lífs.


6.    LÖGGÆSLA til að finna fíkniefnasala og auka eftirlit með smygli á öllum sviðum. Það ætti að vera hægt að finna dópsala í smábæjum þegar unglingar geta fundið þá með einu símtali.


7.    DÓMSMÁL Hætta að dæma helsjúka fíkla í almenn fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu og skyld brot og skilgreina hana sem heilbrigðisvandamál. Byggja upp meðferðarstofnanir fyrir neyslutengd afbrot. Þyngja enn refsingar fyrir þá sem selja og fjármagna eiturlyf - en eru ekki háðir þeim sjálfir. Það eru hinir raunverulegu glæpamenn. Löggjöf til að skylda fíkla til langtímameðferðar. Um 70% þeirra sem dvelja í fangelsum landsins eru í fíkniefnaneyslu eða tengdir henni. Með því að hætta að setja fíkla í fangelsi, en vista þá þess í stað á þar til gerðu lokuðu meðferðaheimili þar sem unnið er af fagmennsku, losnar mikið pláss í fangelsum landsins.  Peninga sem þar sparast er hægt að nota til að fjármagna meðferðarstofnanir.

 

Meginatriðið í stefnunni er að stjórnvöld annist þennan málaflokk en láti ekki áhugasamtök alfarið um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband