Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
29.3.2007 | 15:47
Unga Ísland
Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að tryggja velferð barna á Íslandi. Niðurstöður kannana sem kynntar hafa verið undanfarið sýna að þar er verk að vinna. Of mörgum börnum hér líður illa. Vinnutími foreldra er of langur og álag mikið á foreldrum ungra barna. Upplausn í fjölskyldum og flókin fjölskyldutengsl vekja vanlíðan hjá börnum.
Það koma m.a. fram í máli Sigrúnar Júlíusdóttur prófessors í HÍ í morgun á ráðstefnunni "Mótum framtíð" sem stendur nú yfir á Nordica hótelinu. Ég minni líka á átakanlegar niðurstöður tveggja nýlegra rannsókna um átakanlegar afleiðingar fátæktar á börn, en 5.300 eru í fjölskyldum með tekjur undir fátæktarmörkum.
Við í Samfylkingunni mun á næsta kjörtímabili beita okkur fyrir markvissum aðgerðum til að bæta stöðu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Það verður gert í samstarfi við foreldra, skóla, sveitarfélög, samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög, meðferðaraðila, samtök sem vinna að heill barna og samtök fólks af erlendum uppruna. Þessi stefnumótun Samfylkingarinnar í málefnum barna og ungmenna var kynnt í dag. Hún er metnaðarfull og framsækin.
Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og það er mikilvægur mælikvarði á framsýni þjóða, hvernig þær búa yngstu kynslóðir sínar undir framtíðina. Við viljum að börnin okkar verði sterkir og sjálfstæðir einstaklingar.
Til þess að öll börn eigi þess kost að rækta og njóta hæfileika sinna til fulls, þarf að skapa þeim hagstæð uppvaxtarskilyrði og jafnframt foreldrum góðar aðstæður til að sinna uppeldi þeirra og uppvexti. Skólum þarf að skapa skilyrði til að standa vel að menntun þeirra og gott stuðnings- og öryggisnet þarf að vera til staðar ef út af bregður.
Stöndum vörð um börnin okkar -fjárfestum í framtíðinni
Það mun Samfylkingin leggja ríka áherslu á komist hún í ríkistjórn eftir kosningarnar 12. maí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2007 | 17:36
Sólrún, Sahlin og Thorning Smith
Flottir foringjar, - formenn þriggja jafnaðarflokka á Norðurlöndunum verða á landsfundinum okkar í Egilshöll.
Mona Sahlin nýkjörinn formaður sænska jafnaðarflokksins og Helle Thorning Schmidt formaður danska jafnaðarflokksins munu ávarpa landsfund Samfylkingarinnar á setningardaginn þann 13. apríl. Þær hafa þekkst boð Ingibjargar Sólrúnar um að heiðra okkur með nærveru sinni. Þarna gefst sögulegt tækifæri til að hlusta á þessar forystukonur í stjórnmálum á Norðurlöndum og heyra viðhorf þeirra til helstu viðfangsefna jafnaðarmanna, um nýjustu strauma í velferðarmálum og fleira sem á þeim brennur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 17:19
Framkvæmdasjóðurinn skili sér í uppbyggingu
Samfylkingin ætlar að tryggja að greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði notaðar í uppbyggingu í þeirra þágu. Ekki er vanþörf á. Samfylkingin hefur auglýst þetta og stendur við hvert orð í þeirri auglýsingu enda allt rétt sem í henni stendur.
Ný sýn - Nýjar áherslur. Framkvæmdasjóður aldraðra var látinn greiða fyrir gerð og útsendingu kynningarbæklings heilbrigðisráðherra með þessari yfirskrift um persónulegar áherslur hennar í öldrunarmálum. Ef til vill löglegt, en er það siðlegt?
Barátta Svavars Sigurðssonar gegn eiturlyfjum, Óperukórinn, Söngskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Ungmennafélag Íslands, Tónaljón og fjöldi einstaklinga og samtaka hefur fengið styrki úr sjóðnum, jafnvel án þess að vita að peningarnir komi þaðan. Allt án efa ágætis verkefni, - en á Framkvæmdasjóðurinn að standa straum af þeim?
Í Framkvæmdasjóðinn greiða allir landsmenn nefskatt til að byggja upp þjónustu við aldraða. Það er hneisa að fé úr sjóðnum sé notað í hin og þessi verkefni þegar 400 aldraðir bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarýmum, hátt í 1000 aldraðir hjúkrunarsjúklingar eru í þvingaðri samvist í fjölbýlum og 70 manns eru fastir inni á LSH í allt að ár vegna þess að þeir komast ekki inn á hjúkrunarheimili.
Ekkert nýtt hjúkrunarpláss hefur bæst við á síðasta ári og ekkert á þessu ári, þrátt fyrir fögur loforð heilbrigðisráðherra ríkisstjórnarinnar reglulega í tólf ár. Framkvæmdirnar á þeim bæ er ein skóflustunga í ár!
Skuldar ríkisstjórnin ekki öldruðu, veiku fólki afsökunarbeiðni á þessu ástandi? Afsökunarbeiðni á meðferð mikilla peninga úr mörkuðum tekjustofni, Framkvæmdasjóðnum, í ýmis gæluverkefni þegar verkefnin sem sjóðurinn var stofnaður til að kosta með sérstökum skatti eru látin sitja á hakanum.
Við jafnaðarmenn munum leysa hjúkrunarvandann á næstu tveimur árum komumst við í ríkisstjórn. Við stöndum við gagnrýni okkar á framgöngu og vanrækslu ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra.
Ástandið í hjúkrunarmálunum eru talandi dæmi um það að 12. maí verður að gefa ríkisstjórnarflokkunum frí.
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2007 | 15:05
Firrtur fjármálaráðherra og fátækt barna
"Drengir, sjáið þið ekki veisluna?" - voru viðbrögð fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins við þeirri staðreynd að barnabætur hafa lækkað ár frá ári í tíð ríkisstjórnarinnar þar til nú rétt fyrir kosningar, en málið var rætt í þinglok.
Þeim um 5.300 börnum sem eru í fjölskyldum sem hafa tekjur undir fátæktarmörkum á Íslandi hefur ekki verið boðið til veislu ráðherrans. Í þeirri veislu eru aðrir.
Á ráðstefnu Félags félagsfræðinga, sem ég sat í síðustu viku, fóru sérfræðingar yfir afleiðingar fátæktar á íslensk börn. Niðurstöður rannsóknanna sem kynntar voru vöktu sorg og óhug hjá mér.
Ein rannsóknin mældi upplifun unglinga á peningaskorti á heimilinu og tengsl við vanlíðan og vanda þeirra, þátttakendur voru 7.500 grunnskólabörn árið 2006.
Önnur mældi upplifun barna á fjárhagsstöðu foreldranna og tengsl hennar við bágt heilsufar þeirra sjálfra. Þar tóku þátt um 12.000 grunnskólabörn í fyrra.
Niðurstöður beggja rannsóknanna eru marktækar;
Bein tengsl eru milli fjárhagslegrar afkomu foreldra og andlegrar líðanar barna. Fátækustu börnin voru margfalt líklegri til þess að sýna mikil einkenni depurðar, að vera leið og einmana, langa til að gráta og eiga erfitt með að sofna.
Fátæk börn fóta sig verr í skólakerfinu og gengur illa í námi.
Fátæku börnin töldu sig síður bundin af reglum samfélagsins. Þeim fannst heimurinn óréttlátur.
Börnin sem upplifðu fátækt fannst þau heilsulausari, þau hreyfðu sig minna, voru of þung, borðuðu óhollari mat, minna af ávöxtum og fóru mun sjaldnar til tannlæknis en önnur börn.
Árið 2005 var rannsökuð tannheilsa 2.250 grunnskólabarna og niðurstöðurnar, - jú, því lægri sem tekjur foreldranna voru þeim mun meiri voru tannskemmdirnar.
Þarf frekari vitna við að gefa þurfi þessum stjórnarherrum frí í vor?
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2007 | 19:00
Reykvískar konur geta breytt sögunni
Ég hef sjaldan fylgst með eldhúsdagsumræðum af meiri athygli en nú. Ingibjörg Sólrún bar af forystumönnum flokkanna, bæði í framgöngu og málflutningi. Mikið gætum við íslenskar konur verið stoltar af henni sem forsætisráðherra.
Það er í valdi kvenna á höfuðborgarsvæðinu að gera kosningarnar í vor sögulegar og gera konu, - reynda konu, fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík - að fyrsta forsætisráðherra Íslands.
Konu sem hefur látið verkin tala þegar hún var í aðstöðu til að breyta einhverju, - við munum t.d. hvernig ástandið var í dagvistarmálunum áður en Ingibjörg Sólrún kom í ráðhúsið. Það var eins og ástandið er í hjúkrunarmálunum nú. Hún breytti stöðunni gagnvart barnafólkinu og hún mun leysa hjúkrunarvandann komist Samfylkingin til valda. Og ekki má gleyma jafnréttismálunum, sem hún náði miklum árangri í með því að setja þau í forgang í borginni.
Til þess að stuðla að þeim sögulegu tíðindum að kona verði forsætisráðherra verða konurnar sem studdu okkur jafnaðarmenn, - kusu Samfylkinguna í síðustu kosningum - að styðja okkur áfram.
Hugsið ykkur hversu mikilvægt það er í jafnréttis- og kvennabaráttunni að ungt fólk fái slíka fyrirmynd, konu sem forsætisráðherra frekar en að í forsætisráðuneytið setjist einn karlinn enn að loknum kosningum.
Kona í forsætisráðuneytinu hefði sambærileg áhrif og þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti. Það hafði ótrúlega mikil áhrif á stöðu kvenna og viðhorf landsmanna til þess að konur standi jafnfætis körlum í forystuhlutverkum.
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2007 | 13:24
Hætta steðjar að heimili okkar
Í gær buðum við í Samfylkingarbíó. Fullur salur í Háskólabíói sá mynd Al Gores um loftslagsbreytingarnar. Myndin fékk Óskarinn í síðustu viku, - þetta er mynd sem ætti að vera skyldumæting á, allstaðar - og ekki síst í Bandaríkjunum. Það er ekki laust við að maður verði yfirmáta meðvitaður í orku- og mengunarmálum eftir slíka vakningu.
Gore lýsti allri þeirri vá sem steðjar að vegna mengunar í heiminum og hvernig við verðum að bregðast við. Hætta steðjar að heimili okkar, jörðinni - og það er verkefni okkar að hlúa að þessu heimili, - við eigum ekki í önnur hús að venda.
Hvers vegna eigum við Íslendingar að eyðileggja fagra náttúru, reisa virkjanir, nýta ódýra og hreina orku okkar til mengandi álframleiðslu svo að bandarískir unglingar geti drukkið gosdrykki úr áldósum sem þeir henda síðan frá sér og menga umhverfið (en ekki er skilaskylda á áldósum í Bandaríkjunum)? Er það okkar hlutverk að halda niðri verði á áli með ódýrri orku, svo vopnasalar geti selt ódýr vopn og stríðstól til ófriðarsvæða í þriðja heiminum, - eða til að lágstéttar-Bretar geti flogið ódýrt á fyllerí til Ibiza, vegna þess hve álið í flugvélunum er ódýrt? Hafa menn ekki hugsað út í það að ef Golfstraumurinn fer af leið verða fiskimiðin okkar ekki lengur gjöful, - fyrir utan að það verður illa byggilegt hér?
Þetta eru dæmi um viðhorf sem fram komu í umræðum á glæsilegum fundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um helgina.
Þetta var fundur um loftslagsbreytingarnar og hlýnun jarðar. Þar hélt Árni Finnsson mjög áhugavert erindi. Mörður Árnason fór yfir stefnu okkar í Fagra Íslandi, sem snýst um hvernig við viljum bregðast við þessu stærsta verkefni stjórnmálanna. Þróunin verður ekki stöðvuð en við verðum að bregðast við strax.
Ég ræddi um alþjóðlegt samstarf sem Samfylkingarfólk og jafnaðarmenn á Norðurlöndum taka þátt í til að reyna að sporna gegn hlýnuninni og þeim óskaplegu áhrifum sem hún hefur í för með sér. Þetta mál hafur verið eitt helsta viðfangsefni umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, sem ég hef átt sæti í undanfarin fjögur ár. Þetta er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna nú og þar verða allir jarðarbúar að leggja sitt af mörkum.
Á heimasíðu minni eru tvær greinar um málið sem birtust nýverið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)