Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
27.4.2007 | 10:45
"Menn eiga ekki að sitja í stjórn of lengi"
Þarna hitti Jón naglann á höfuðið. Menn eiga ekki að sitja of lengi í valdastöðum, - og menn eiga ekki heldur að sitja of lengi í ríkisstjórn. Þeir verða værukærir, - vald spillir. Nú er bitlingaúthlutunin í fullum gangi hjá stjórnarliðinu sbr. stjórnarformennskuna og svo ber að halda til haga annarri misnotkun á valdi, sem hefur verið í fréttum, - ég segi ekki meir. Kjósendur ættu að taka þessi orð flokksmannsins alvarlega. Það er ekki hollt fyrir neinn hvorki flokk né fólkið í landinu að sömu menn stjórni of lengi. Eftir 12 og 16 ára setu er kominn tími til að breyta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2007 | 23:37
Reykur og gufa í Reykjavík
Hér kvaddi vetur í gær með ósköpum í henni Reykjavík. Fyrst brann Haraldarbúð, Fröken Reykjavík og Cafe Ópera - allt hornið Austurstræti-Lækjargata fuðraði upp síðdegis og ekki var líft í miðbænum í nágrenninu, - óskaplegt menningartjón - og svo sprakk heitavatnsæð á Vitastíg í gærkvöldi og 80 stiga heitt vatn rann eins og stórfljót niður Laugaveginn. Sjóðheitt vatnið sprautaðist um götur og gangstéttar og sjö manns brenndust á fótum. Gufan og reykurinn í báðum tilvikum voru slík að Reykjavík stóð undir nafni og meira en það.
Jæja, nú er sumarið komið og sólin skín þótt ekki sé hlýtt - það fraus saman í nótt, - sem boðar gott! Er búin að vera á skemmtunum og í skrúðgöngum víða um bæinn í dag og er nú að byrja að henda kosningaefni niður í tösku. Við Rannveig Guðmundsdóttir erum á förum í fyrramálið til Oslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar til að hitta Íslendinga um helgina og ræða við þá um kosningarnar og stefnumál Samfylkingarinnar.
Gleðilegt sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2007 | 17:15
Reykjavík brennur
Mig svíður bæði í augu og háls, - hér er ekki vinnufært lengur.
Reykinn leggur yfir miðbæinn Það er ótrúlegt að fylgjast með brunanum í Lækjargötunni og Austurstræti. Hræðilegt að þessi gömlu hús skuli verða eldinum að bráð. Eldurinn er skammt frá skrifstofunni minni í Austurstræti 14 og strætið er eins og meðal á eða lækur því vatnið streymir framhjá öskublandið og lögreglan er löngu búin að loka nærliggjandi götum. Ég, er eins og margir aðrir sem vinna hér í miðbænum að drífa mig heim og fylgist með gangi mála gegnum sjónvarpið, - hér er ólíft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)