20.4.2008 | 13:54
Heimasíðan mín www.althingi.is/arj er nú í notkun
Á heimasíðu minni á Alþingisvefnum eru birtir pistlar "Í stuttu máli" og greinar reglulega.
Sjá nánar
www.althingi.is/arj
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2007 | 01:40
Kjör lífeyrisþega bætt verulega
Formenn stjórnarflokkanna þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde eiga hrós skilið fyrir að hafa gengið svo vasklega fram í þessum málum.
Stjórnarflokkarnir voru mjög samstíga í því að þessi velferðarmál, kjarabætur til lífeyrisþega og málefni barna væru forgangsmál.
Á vorþinginu var samþykkt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna og ungmenna sem þegar er farið að vinna eftir í Félagsmálaráðuneytinu og nú voru kynntar ráðstafanir í þágu aldraðra og öryrkja.
Þær fela m.a. i sér að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin, sem er mikið mannréttindamál og hefur verið báráttumál hagsmunasamtaka bæði aldraðra og öryrkja. Frítekjumark atvinnutekna lífeyrisþega 67 - 70 ára hækkar í 100.000 á mánuði og vasapeningar lífeyrisþega á stofnunum verða hækkaðir.
Gripið verður til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta, nokkuð sem hefur komið illa við marga lífeyrisþega sem hafa fengið kröfur um endurgreiðslu hárra fjárhæða frá Tryggingastofnun aftur í tímann, oft ef tekjur þeirra hafa farið örlítið yfir ákveðin viðmiðunarmörk.
Ríkissjóður mun einnig tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008 eins og lofað er í stjórnarsáttmálanum.
Öryrkjum verða tryggðar sambærilegar kjarabætur en útfærslur verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu.
Geymið séreignarsparnaðinn í 1 ár!
Þann 1. janúar 2009 verður afnumin skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar. Það hefur verið mikið óréttlæti hvernig séreignarsparnaður hefur að litlu orðið vegna tekjutenginga í almannatryggingunum. Ekki er unnt að breyta þessu fyrr en eftir ár vegna skorts á upplýsingum og af tæknilegum ástæðum. Ég hvet því eigendur slíks sparnaðar að bíða í rúmt ár með að taka hann út, - eða þar til breytingin verður að lögum um þarnæstu áramót.
Þessi breyting er mikið réttlætismál eins og reyndar allar þær breytingar sem nú eru boðaðar.
Lífeyrisþegar hljóta að fagna þessum tíðindum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2007 | 21:32
Eiturlyfjabölið á dagskrá
Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur mótað heildstæða stefnu í vímuefnamálum. Hópur fólks með reynslu af málaflokknum vann stefnuna í vetur undir minni verkstjórn. Í framhaldinu var ályktun samþykkt á landsfundi og er hún birt í heild hér að neðan.
Unga Ísland
Í aðgerðaáætluninni um málefni barna og unglinga, "Unga Ísland", sem var eitt helsta stefnuplagg okkar í kosningunum, var einnig tekið á þessum málaflokki. Fyrsta verkefnið í þeirri aðgerðaáætlun er nú að hefjast, - sem er að vinna á allt of löngum biðlistum barna eftir greiningu á Greiningarstöð ríkisins.
Nokkrir þeirra sem unnu hvað ötulast í stefnuhópnum létu í sér heyra í aðdraganda kosninga um málið og vil ég í sambandi nefna þau Njörð P. Njarðvík og Kristínu Blöndal, sem bæði skrifuðu greinar um málið. Hér að neðan eru stefna og hugmyndir Samfylkingarinnar í málaflokknum, sem ég tel mikilvægt að sem flestir kynni sér. Hún byggist á því að komið verði á laggirnar vímuvarnaráði, sem taki á málaflokknum heildstætt og hafi yfirsýn yfir alla þætti hans:
Vímuvarnaráð
Samfylkingin ætlar að setja á laggirnar sérstakt ráð sem fer með yfirumsjón og samræmingu á öllu sem lýtur að vímuefnum. Ráðið skal heyra undir Forsætisráðuneytið og vinna í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti. Þar fer fram samþætting á öllum þáttum sem lúta að málaflokknum. Þar mun starfa sérhæft starfsfólk með víðtæka menntun og reynslu á sviði forvarnar- og meðferðarmála. Leitað verði til þeirra sem hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði og einnig séð til þess að mennta fleira fólk til starfa við meðferðarstofnanir og annast forvarnir. Áfengis og vímuefnavandinn er heilbrigðismál. Greina þarf þörf fyrir úrræði, gera áætlun til langs tíma jafnframt því að bregðast strax við með raunhæfum hætti fyrir þá sem nú eru í vanda. Stofna þarf sérstakt fagráð sem leitar eftir hugmyndum um allan heim og kannar hvað hefur reynst vel. Ráðið hefur yfirumsjón og eftirlit með öllum sem fá opinbera styrki til reksturs heimila og stofnana. Ráðið sér um fjárhagslegt og faglegt eftirlit, veitir ráðgjöf og stuðlar að samvinnu. Sér um að farið sé að lögum, t.d að aðeins sjúkrastofnanir sjái um afeitrun. Það þarf að samræma og stuðla að samvinnu allra þeirra sem vinna að forvörnum og/eða meðferðaúrræðum. Það þarf fjölbreytni í meðferðarúræðum, meðal annars þarf að vera til staðar langtímameðferð sem spannar eitt til þrjú ár fyrr þá sem þurfa á því að halda. Halda ber í þær góðu stofnanir sem hafa sýnt að þær standast kröfur um fagmennsku og veita áfram fé til þeirra. En ríkið þarf líka að axla ábyrgð og koma á stofn meðferðarheimilum/stofnunum.
VERKSVIÐ:
1. FORVARNIR: Setja í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla skyldunám í skaðsemi áfengis og fíkniefna. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar verði ráðnir að hverjum skóla til forvarna. Skýr og einföld fræðsla um staðreyndir án prédikunar. Einungis þannig næst til allra barna og unglinga. Samstarf við hin ýmsu félagasamtök og stofnanir svo sem barnaverndarstofu, foreldrafélög, leik-grunn- og framhaldsskóla, lögreglu, fangelsismálastofnun, félagsþjónustu, félagsmiðstöðvar, svæðisskrifstofu fatlaðra, heimahjúkrun svo að einhver dæmi séu nefnd.
2. RÁÐGJÖF, fræðslu um einkenni og neyðarhjálp verði komið á fyrir aðstandendur þegar grunsemdir vakna um neyslu. Áhersla á að vara við þögn. Upplýsa alla, skólayfirvöld, vini og vandamenn. Hugsanlegt samstarf við heilsugæslu og eða þjónustumiðstöðvar á hverjum stað.
3. FYLGJA EFTIR LÖGUM sem banna börnum og unglingum að neyta áfengis og fíkiefna. Hafa samband við foreldra þegar slík tilvik koma upp. Taka einnig á sífelldum brotum á banni við áfengisauglýsingum - skýrari löggjöf sem síður er hægt að brjóta. Óviðunandi að hafa löggjöf sem ekki er virt.
4. INNGRIP strax og vitað er um ólöglega fíkniefnaneyslu. Skoða hvernig aðrar þjóðir hafa nýtt sér heimildir um þvingaða meðferð og hver árangur af slíkum aðgerðum hefur verið. Inngrip er nauðsynlegt og ítrekuð neysla unglinga kallar á ábyrgar aðgerðir.
5. AÐSTOÐ EFTIR MEÐFERÐ til að komast aftur til eðlilegs lífs.
6. LÖGGÆSLA til að finna fíkniefnasala og auka eftirlit með smygli á öllum sviðum. Það ætti að vera hægt að finna dópsala í smábæjum þegar unglingar geta fundið þá með einu símtali.
7. DÓMSMÁL Hætta að dæma helsjúka fíkla í almenn fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu og skyld brot og skilgreina hana sem heilbrigðisvandamál. Byggja upp meðferðarstofnanir fyrir neyslutengd afbrot. Þyngja enn refsingar fyrir þá sem selja og fjármagna eiturlyf - en eru ekki háðir þeim sjálfir. Það eru hinir raunverulegu glæpamenn. Löggjöf til að skylda fíkla til langtímameðferðar. Um 70% þeirra sem dvelja í fangelsum landsins eru í fíkniefnaneyslu eða tengdir henni. Með því að hætta að setja fíkla í fangelsi, en vista þá þess í stað á þar til gerðu lokuðu meðferðaheimili þar sem unnið er af fagmennsku, losnar mikið pláss í fangelsum landsins. Peninga sem þar sparast er hægt að nota til að fjármagna meðferðarstofnanir.
Meginatriðið í stefnunni er að stjórnvöld annist þennan málaflokk en láti ekki áhugasamtök alfarið um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2007 | 21:37
Klettagæsir á Þingvöllum
Í dag heyrði ég af sérkennilegum breytingum á lífsháttum gæsa. Á Þingvöllum hafa gæsir tekið upp á því að setjast að í hamraveggjum gjánna, gera sér þar hreiður og verpa. Ekki er vitað til þess að sögn þjóðgarðsvarðar að gæsir hafi tekið upp á þessu fyrr. Ég var á ferð með Þingvallanefnd í dag í fallegu veðri eftir fyrsta fund nefndarinnar og gengum við niður Almannagjá og þá sagði Sigurður þjóðgarðsvörður mér frá þessu merkilega háttalagi gæsanna.
Nýverið sá ég mynd í Mogga af gæsahreiðri á floti í Hálslóni. Þessi háttur gæsanna á Þingvöllum hefur greinilega ekki frést austur, því þá hefðu þær án efa byggt hreiður sín í Dimmugljúfrum og dvalið þar óhultar með ungana sína. Hver veit nema það komi fréttir af því næsta sumar að gæsir víðar en á Þingvöllum gerist klettagæsir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2007 | 10:45
"Menn eiga ekki að sitja í stjórn of lengi"
Þarna hitti Jón naglann á höfuðið. Menn eiga ekki að sitja of lengi í valdastöðum, - og menn eiga ekki heldur að sitja of lengi í ríkisstjórn. Þeir verða værukærir, - vald spillir. Nú er bitlingaúthlutunin í fullum gangi hjá stjórnarliðinu sbr. stjórnarformennskuna og svo ber að halda til haga annarri misnotkun á valdi, sem hefur verið í fréttum, - ég segi ekki meir. Kjósendur ættu að taka þessi orð flokksmannsins alvarlega. Það er ekki hollt fyrir neinn hvorki flokk né fólkið í landinu að sömu menn stjórni of lengi. Eftir 12 og 16 ára setu er kominn tími til að breyta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2007 | 23:37
Reykur og gufa í Reykjavík
Hér kvaddi vetur í gær með ósköpum í henni Reykjavík. Fyrst brann Haraldarbúð, Fröken Reykjavík og Cafe Ópera - allt hornið Austurstræti-Lækjargata fuðraði upp síðdegis og ekki var líft í miðbænum í nágrenninu, - óskaplegt menningartjón - og svo sprakk heitavatnsæð á Vitastíg í gærkvöldi og 80 stiga heitt vatn rann eins og stórfljót niður Laugaveginn. Sjóðheitt vatnið sprautaðist um götur og gangstéttar og sjö manns brenndust á fótum. Gufan og reykurinn í báðum tilvikum voru slík að Reykjavík stóð undir nafni og meira en það.
Jæja, nú er sumarið komið og sólin skín þótt ekki sé hlýtt - það fraus saman í nótt, - sem boðar gott! Er búin að vera á skemmtunum og í skrúðgöngum víða um bæinn í dag og er nú að byrja að henda kosningaefni niður í tösku. Við Rannveig Guðmundsdóttir erum á förum í fyrramálið til Oslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar til að hitta Íslendinga um helgina og ræða við þá um kosningarnar og stefnumál Samfylkingarinnar.
Gleðilegt sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2007 | 17:15
Reykjavík brennur
Mig svíður bæði í augu og háls, - hér er ekki vinnufært lengur.
Reykinn leggur yfir miðbæinn Það er ótrúlegt að fylgjast með brunanum í Lækjargötunni og Austurstræti. Hræðilegt að þessi gömlu hús skuli verða eldinum að bráð. Eldurinn er skammt frá skrifstofunni minni í Austurstræti 14 og strætið er eins og meðal á eða lækur því vatnið streymir framhjá öskublandið og lögreglan er löngu búin að loka nærliggjandi götum. Ég, er eins og margir aðrir sem vinna hér í miðbænum að drífa mig heim og fylgist með gangi mála gegnum sjónvarpið, - hér er ólíft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2007 | 15:47
Unga Ísland
Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að tryggja velferð barna á Íslandi. Niðurstöður kannana sem kynntar hafa verið undanfarið sýna að þar er verk að vinna. Of mörgum börnum hér líður illa. Vinnutími foreldra er of langur og álag mikið á foreldrum ungra barna. Upplausn í fjölskyldum og flókin fjölskyldutengsl vekja vanlíðan hjá börnum.
Það koma m.a. fram í máli Sigrúnar Júlíusdóttur prófessors í HÍ í morgun á ráðstefnunni "Mótum framtíð" sem stendur nú yfir á Nordica hótelinu. Ég minni líka á átakanlegar niðurstöður tveggja nýlegra rannsókna um átakanlegar afleiðingar fátæktar á börn, en 5.300 eru í fjölskyldum með tekjur undir fátæktarmörkum.
Við í Samfylkingunni mun á næsta kjörtímabili beita okkur fyrir markvissum aðgerðum til að bæta stöðu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Það verður gert í samstarfi við foreldra, skóla, sveitarfélög, samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög, meðferðaraðila, samtök sem vinna að heill barna og samtök fólks af erlendum uppruna. Þessi stefnumótun Samfylkingarinnar í málefnum barna og ungmenna var kynnt í dag. Hún er metnaðarfull og framsækin.
Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og það er mikilvægur mælikvarði á framsýni þjóða, hvernig þær búa yngstu kynslóðir sínar undir framtíðina. Við viljum að börnin okkar verði sterkir og sjálfstæðir einstaklingar.
Til þess að öll börn eigi þess kost að rækta og njóta hæfileika sinna til fulls, þarf að skapa þeim hagstæð uppvaxtarskilyrði og jafnframt foreldrum góðar aðstæður til að sinna uppeldi þeirra og uppvexti. Skólum þarf að skapa skilyrði til að standa vel að menntun þeirra og gott stuðnings- og öryggisnet þarf að vera til staðar ef út af bregður.
Stöndum vörð um börnin okkar -fjárfestum í framtíðinni
Það mun Samfylkingin leggja ríka áherslu á komist hún í ríkistjórn eftir kosningarnar 12. maí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2007 | 17:36
Sólrún, Sahlin og Thorning Smith
Flottir foringjar, - formenn þriggja jafnaðarflokka á Norðurlöndunum verða á landsfundinum okkar í Egilshöll.
Mona Sahlin nýkjörinn formaður sænska jafnaðarflokksins og Helle Thorning Schmidt formaður danska jafnaðarflokksins munu ávarpa landsfund Samfylkingarinnar á setningardaginn þann 13. apríl. Þær hafa þekkst boð Ingibjargar Sólrúnar um að heiðra okkur með nærveru sinni. Þarna gefst sögulegt tækifæri til að hlusta á þessar forystukonur í stjórnmálum á Norðurlöndum og heyra viðhorf þeirra til helstu viðfangsefna jafnaðarmanna, um nýjustu strauma í velferðarmálum og fleira sem á þeim brennur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 17:19
Framkvæmdasjóðurinn skili sér í uppbyggingu
Samfylkingin ætlar að tryggja að greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði notaðar í uppbyggingu í þeirra þágu. Ekki er vanþörf á. Samfylkingin hefur auglýst þetta og stendur við hvert orð í þeirri auglýsingu enda allt rétt sem í henni stendur.
Ný sýn - Nýjar áherslur. Framkvæmdasjóður aldraðra var látinn greiða fyrir gerð og útsendingu kynningarbæklings heilbrigðisráðherra með þessari yfirskrift um persónulegar áherslur hennar í öldrunarmálum. Ef til vill löglegt, en er það siðlegt?
Barátta Svavars Sigurðssonar gegn eiturlyfjum, Óperukórinn, Söngskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Ungmennafélag Íslands, Tónaljón og fjöldi einstaklinga og samtaka hefur fengið styrki úr sjóðnum, jafnvel án þess að vita að peningarnir komi þaðan. Allt án efa ágætis verkefni, - en á Framkvæmdasjóðurinn að standa straum af þeim?
Í Framkvæmdasjóðinn greiða allir landsmenn nefskatt til að byggja upp þjónustu við aldraða. Það er hneisa að fé úr sjóðnum sé notað í hin og þessi verkefni þegar 400 aldraðir bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarýmum, hátt í 1000 aldraðir hjúkrunarsjúklingar eru í þvingaðri samvist í fjölbýlum og 70 manns eru fastir inni á LSH í allt að ár vegna þess að þeir komast ekki inn á hjúkrunarheimili.
Ekkert nýtt hjúkrunarpláss hefur bæst við á síðasta ári og ekkert á þessu ári, þrátt fyrir fögur loforð heilbrigðisráðherra ríkisstjórnarinnar reglulega í tólf ár. Framkvæmdirnar á þeim bæ er ein skóflustunga í ár!
Skuldar ríkisstjórnin ekki öldruðu, veiku fólki afsökunarbeiðni á þessu ástandi? Afsökunarbeiðni á meðferð mikilla peninga úr mörkuðum tekjustofni, Framkvæmdasjóðnum, í ýmis gæluverkefni þegar verkefnin sem sjóðurinn var stofnaður til að kosta með sérstökum skatti eru látin sitja á hakanum.
Við jafnaðarmenn munum leysa hjúkrunarvandann á næstu tveimur árum komumst við í ríkisstjórn. Við stöndum við gagnrýni okkar á framgöngu og vanrækslu ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra.
Ástandið í hjúkrunarmálunum eru talandi dæmi um það að 12. maí verður að gefa ríkisstjórnarflokkunum frí.
Bloggar | Breytt 28.3.2007 kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Myndaalbúm
Af mbl.is
Erlent
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv